Sunna
Á ég að trúa eigin augum? Er sólskin úti? Tvo daga í röð? Jú kannski svo sé, hún hefur hugsanlega komið með óþekktum ferðalangi frá meginlandi Evrópu.... ;) Svo er hér með minnt á Jónsmessunótt sem er núna í nótt, þá tala dýr tungum og dögg grassins hefur lækningamátt. Öll sem vilja eru boðin velkomin út í sveit að stripplast í dögginni og fá bót meina sinna í kaupbæti. Mun undirrituð bregða undir sig betri fætinum og fara í gönguferð á fjallið Þríhyrning. Hvur veit nema að brækurnar fái að fljúga og rassinn viðraður.
Góðar stundir.
3 Comments:
Undirritaður rak augun í það að þrátt fyrir að það stæði að undirrituð lofaði bæði fólk velkomið þá var ekkert nafn ritað undir meginmál textans.
Ég var beðinn um að koma með í sexkant þannig að ég komst því miður ekki með þér á fjallið "Þríhyrning". Ætli það sé uppáhalds fjallið hans Pythagorasar?
Aukinheldur vill ég benda á að maður þarf ekkert endilega að fara út í sveit til að velta sér upp úr lækningarmáttardögg, nóg er af henni t.d. í Hljómskálagarðinum og á umferðareyjum.
Sólin er búin að vera svo góð undanfarið við mig að hún skellti á mig smá brúnku svo núna lít ég lifandi út og er nokkuð sæl með það! :) Ég striplaðist ekki neitt á Jónsmessunni, þar sem ég var í mat hjá mömmu.
Undirrituð beðst velvirðingar á að undirritun hafi vantað á fyrrgreint skjal og tekur í sama streng og ofangreindur undirritaður Jónas um að dögg fyrirfinnist víða. En vegna óskrifaðra viðmiða í íslensku samfélagi hafi undirritaðri ekki fundist við hæfi að boða til strípisamkundu á umferðareyju, svo sem á grasbalanum sem skreytir hringtorgið við mót Hringbrautar og Suðurgötu. Beðist er velvirðingar á því ef undirrituð hefur ekki verið nógu skýr í máli.
Virðingarfylllst, Elínus Aspus Gislados.
p.s. Pýþagóras er verndari Þríhyrnings en einhyrningur þrátt fyrir allt einkennismerki fjallsins fríða.
Skrifa ummæli
<< Home