Frétt í mogganum tilkynnti lát þessarar kúbönsku konu og var hún titluð jafnréttisbaráttusinni og með valdamestu konum Kúbu svo ég bara varð að kynna mér hana betur. Eftir svolítinn lestur komst ég að þeirri niðurstöðu að hún og hlutverk hennar í gerð mannkynssögunnar eigi skilið meira en nokkur orð í hálfgerðri neðanmálsgrein fjölmiðla svo ég ákvað bara að “pistla” soldið um hana hér. Vonandi hafiði gagn og gaman af…..
Hún fæddist 7. apríl 1930 í borginni Santiago de Cuba. Fjölskyldan hennar var verulega efnuð og faðir hennar, lærður lögfræðingur, starfaði sem framkvæmdarstjóri í Romm verksmiðju. Hún var sjálf mikill námshestur og tók heiðursútskrift úr High School og var strax þá mjög virk í skipulagningu félagsmála innan skólans. Fljótlega eftir að hafa lokið prófið fóru byltingarsinnaðar hugsanir að taka sér búfestu í kolli hennar og áhyggjur foreldra hennar af ótryggu ástandinu í landinu og þátttöku hennar í baráttunni gegn yfirvöldum urðu til þess að hún var send í framhaldsnám til Bandaríkjanna árið 1953 rétt fyrir misheppnaða árás Castro og félaga á herstöðina Moncada. Hún kom þaðan árið 1956 efnaverkfræðingur og vatt sér allt að því beint í neðanjarðarbaráttuna gegn þáverandi forseta Kúbu, Batista.
Innan árs frá beinni þátttöku sinni var Vilma orðin leiðtogi borgaralegrar andstöðu í sínu umdæmi, Santiago de Cuba. Því starfi tók hún við af Frank País en bæði hann og hans forveri höfðu látist blóðugum og ofbeldisfullum dauðdaga í sínu starfi. Hugrekki hefur því verið einn af hennar kostum. Starfið fól í sér skipulagningu mótmæla og stjórnun aðgerða. Hún þótti hæfileikarík og yfirveguð í starfi þar sem meðal annars þurfti að taka á njósnurum yfirvalda og tilraunum þeirra til að tortíma andstöðunni. Samkvæmt þeim sem unnu með henni á þessum tíma var hún nokkuð kaldlynd og hikaði ekki við að láta aflífa þá sem grunaðir voru um njósnir eða svik. Slík vinnubrögð gerðu hana vinsæla og traustsins verða í augum Castro-bræðranna og félaga þeirra í útlegð í Mexíkó.
Hún hlaut leyninafnið “Deborah” og var í beinum samskiptum við Castro og undirbjó komu hans til Kúbu. Starfsaðferðir hennar og árangur gerðu það að verkum að hún var mikil ógn í huga yfirvalda og undir lok 1958 var hún orðinn einn eftirsóttasti “glæpamaður” á svæðinu. Til að forðast handtöku flúði hún upp í fjöllin, Sierra Maestra, til Castro og félaga og hélt baráttunni áfram þar.
Í Sierra Maestra kynntist hún ástinni, Raul Castro (bróður Fidels og starfandi forseta Kúbu). Þau giftust í apríl 1959, fjórum mánuðum eftir innkomu og sigurgöngu byltingasinna í Havana. Fyrstu árin lét hún lítið fyrir sér fara í byltingarstjórninni sneri sér fyrst og fremst að stofnun fjölskyldu.
Hún stúderaði rússnesku og stjórnmálafræði, sem átti eftir koma sér vel í framtíðarstörfum hennar.
1960 stofnaði hún Federación de Mujeres Cubanas (Bandalag kúbanskra kvenna) og var forseti þeirra samtaka í ein 40 ár. Samtökin höfðu það að markmiði að standa fyrir endurbótum í landbúnaði er sneri að bóndakonum og sveitastúlkum. Bandalagið stóð fyrir læsi-herferðum og stofnun skóla og reyndu með þeim hætti að auka á menntunarmöguleika kvenna og bæta stöðu þeirra inn á heimilunum. Takmarkið var að bæta lífsskilyrði kvenna almennt svona “soviet-style”. Konur voru hvattar til að taka þátt í atvinnumarkaðnum og sett voru upp barnaheimili.
Í kringum árið 1962 vildi byltingarstjórnin breyta ímynd sinni sem ofbeldis- og uppreisnarstjórnar og gerði það meðal annars með því að “losa sig við” Ché Guevara og draga úr stuðningi við uppreisnarhreyfingar víða í S-Ameríku. Vilma varð einhvers konar sendiherra og andlit nýrra stjórnunarhátta. Hún ferðaðist víðs vegar um S-Ameríku og Evrópu og kynnti byltinguna og jákvæð áhrif hennar, myndaði ný sambönd og starfaði sem alsherjardiplómati og þótt standa sig vel.
Árið 1965 var hún send til Sovétríkjanna til sömu starfa en byltingarstjórnin var hrædd um óstöðugleika stuðnings Sovéta og hlutverk Vilmu var að styrkja samskiptin og tryggja áframhaldandi stuðning Sovétmanna. Hún þótti standa sig með ágætum ytra.
Eitt af því sem má þakka Vilmu og lifir áfram er kúbanski fjölskyldulagabálkurinn en hann er að mestu hennar verk. Bálkurinn miðaði að því virkja konur til pólitískrar meðvitundar og virkja karlana í heimilisstörfum og uppeldi. Jöfn staða kynjanna var tryggð innan hjónabandsins og reynt var að styrkja hjónabandið sem stofnun. Einnig var kynjunum tryggður jafnur eignaréttur. Jafnur réttur barna, hvort sem þau voru getin innan eða utan hjónabands, var tryggður sem og réttur þeirra til menntunar og ástúðlegs uppeldis.
Vilma barðist einnig fyrir réttindum samkynhneigðra og er talin ástæða þess að samkynhneigð hefur verið lögleg síðan um 1980.
Oft hefur verið tala um Raul Castro sem hæglátan fjölskyldumann og ljóst er af ofangreindum upplýsingum (fengnum með því að gúgla kelluna) að Vilma var það einnig og upprunalegar hugsjónir hennar um að jafna rétt og sjá til þess að allir setjist að sama hlaðborði réttinda hafi fylgt henni alla tíð þó svo að aðferðafræði hennar hafi verið nokkuð blóðug um tíma.
Vilma og Raul eignuðust þrjár dætur, Mariela (sem berst sem stendur fyrir frekari réttindum samkynhneigðra og transkynhneigðra/transexuals), Deborah og Nilsa og einn son, Alejandro.
Ljóst er að byltingin hefði ekki getað átt sér stað án einstaklinga eins og Vilmu, því auk þess að geta tekið erfiðar ákvarðanir varðandi líf njósnara og svikara var hún diplómati dauðans, hún gat sem sagt leikið báðum skjöldum..eitthvað sem Ché kallinn átti erfitt með enda urðu sovéskar aðferðir hennar ofan á kínverskri aðferðafræði Ché.
Jæja þetta er orðinn nokkuð góður pistill um kellu sem ég væri alveg til í að vita meira um. Vildi óska að svona konur fengju umfjöllun í lesbókinni líkt og Castro-bræðurnir munu fá þegar þeir kveðja.
Bæjó,
Vladí