Nú er af mörgum talið vera einstaklingsfrelsi á Íslandi. Hver og einn einstaklingur sé metinn af eigin verðleikum og komi þar ekkert annað til. Alls ekki kyn. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér seinustu mánuði. Þar sem að ég er kona eigi einsömul hefur það runnið í gegnum hugann hvort stelpa eða strákur muni koma í heiminn eftir nokkra mánuði. Að sjálfsögðu er vöngum velt yfir því eins og öðru.
Þegar fólk hefur frétt af óléttunni er ég af langflestum spurð hvort ég viti hvort kynið það sé. Og af hverju ég vilji ekki vita hvort kynið það sé. Ef ég á að vera hreinskilin þá fer það svolítið í taugarnar á mér. Ekki vegna þess að forvitnin sé óvenjuleg heldur vegna þess að þetta er það fyrsta sem kemur upp í hugann.
Af hverju ættu konur að vilja að fá að vita hvort kynið þær ganga með? Bara af því að það er hægt? Eða af því að þá er hægt að kaupa meira bleikt eða meira blátt? Eða af því að það nær þá öðrum tengslum við barnið? Út frá mínu sjónarhorni séð þá virðist það eingöngu vera til þess að umhverfið geti farið að undirbúa komu þess, sem er vel, en út frá hverju?
Stöðluðum hugmyndum um kynin? Að stelpa þurfi meira krúttlegt og sætt í kringum sig en strákurinn töffaraumhverfi? Spyr sú sem ekki veit. En mér finnst þetta benda ansi mikið til þess að hugmyndir um eðishyggju kynjanna sé enn mjög sterk.
Ekki misskilja. Meiningin er ekki að úthúða þeim sem vilja fá að vita hvers kyns barnið er, heldur tilganginn með því.
Svo finnst mér eitt ansi skondið. Það er þegar barn í móðurkviði sparkar kröftuglega og því er strax gefið að vera strákur. Eða þegar barnshafandi kona heldur mittinu og barnið er strax talið vera stelpa. Ókei, þetta geta verið skemmtilegar ágiskanir en eigi að síður stundum þreytandi því þær gefa til kynna ansi mikla einfeldni á eiginleikum manneskja. Það getur verið áhugavert að skoða úrval barnafata í verslunum út frá þessu, en er svo sem önnur umræða.
Að segja að kyn skipti ekki máli þegar allir eru ólmir að vita hvort kynið þú sért og gefa þér eiginleika út frá því, meira að segja áður en þú ert komin í heiminn, finnst mér vera fráleitt.
Takk fyrir og lifið heil.
Hvort sem þið eruð strákar eða stelpur ;)
//eög