Spælingar: júní 2006

fimmtudagur, júní 29, 2006


Svör við þeim sem segja að útlendingar taki vinnu af Íslendingum, úr skýrslu nefndar um aðlögun útlendinga, gefin út af Félagsmálaráðuneyti:

- Auðvelt er að rökstyðja kosti þess að fá fólk hingað til starfa frá öðrum heimshlutum. Rannsóknir í Bretlandi hafa sýnt fram á þá staðreynd að innflytjendur skapa fleiri störf en þeir „taka frá innfæddum“. Þetta byggist á því að fjöldi starfa í sveigjanlegu hagkerfi er ekki gefinn. Fólksfjölgun hefur það í för með sér að vinna þarf fleiri verk og störfum fjölgar í þeim greinum sem fyrir voru, auk þess verða fleiri nýjar greinar til. Aukinn fjöldi fólks leiðir samkvæmt því til þess að ný tækifæri myndast á vinnumarkaði. Íslenskir hagfræðingar hafa haldið sömu tilgátum á lofti.

- Eftirlaunaaldur í Danmörku hefur sífellt færst neðar og hlutfall þeirra sem hætta störfum vegna aldurs fer ört vaxandi. Samhliða þessari þróun minnkar hlutfall þeirra sem greiða skatta. Bent er á að til þess að mæta þessum vanda sé ein leið að hækka skatta um 5%. Önnur og betri leið að mati Dana felst meðal annars í því að stuðla að auknum fólksflutningum til Danmerkur og að hraðari aðlögun útlendinga á dönskum vinnumarkaði.

Svo allt tal um að útlendingar séu að hafa af fólki vinnu og eyðileggja allt er að sjálfsögðu bara bull.

Einn fróðleiksmoli að lokum:
Íslendingar búsettir erlendis eru mun fleiri en erlendir ríkisborgarar á Íslandi en þeir voru 10.180 í árslok árið 2003. Á sama tíma voru 28.475 Íslendingar búsettir erlendis.

Góðar stundir.
//eög

miðvikudagur, júní 28, 2006



Tekið af: http://www.underconsideration.com/poster/images

þriðjudagur, júní 27, 2006

Gildi


Þegar talað er um fjölmenningu virðast allir vita um hvað er rætt. Sama gildir um karlmennsku og menningu. Þegar betur er að gáð er þó um mjög loðin hugtök að ræða. Hugmyndir um karlmennsku eru mismunandi og sitt sýnist hverjum um hvað fjölmennning er. Er þessa stundina að velta fyrir mér hugmyndum um íslensk gildi, það er að segja, siðferðisleg viðmið og hugmyndafræði sem Íslendingar vilja halda í heiðri. Pælingin er að komast að því hvort til séu íslensk gildi og þá hver þau séu, með því að skoða hvernig þau birtast hlutbundin. Eins og í stjórnarskrá, lögum, reglugerðum og stefnum ríkis og bæja.

Ástæðan fyrir þessum spælingum eru einmitt tengdar opinberri stefnumótun í málefnum innflytjenda og útlendinga, og aðlögunarmálum. Erlendar greinar og skýrslur segja allar það sama: "virða beri menningu innflytjenda en einnig beri þeim að virða lýðræðisleg gildi og viðhorf þess samfélags sem það flytur til."
En til hvaða gilda er verið að vísa?

Það helsta sem ég hef komist að er að íslensk gildi, og gildi almennt, eru mjög óskýr og loðin. Hugtök eins og jafnrétti og frelsi eru oft nefnd. En hvursu andskoti loðið getur þetta orðið? Svo er alltaf verið að staglast á réttinum til þess að gera þetta og réttinum til hins en, aftur á móti eru svo níu liðir a, b, c, d, e, f, sem tiltaka undantekningar á lögunum.

En hvað eru lýðræðisleg gildi? Kosningaréttur? Atvinnufrelsi? Réttur til menntunar?

Umfram allt jafnrétti. Þó er skondið að sjá þá umræðu í ljósi þess að íbúar ólíkra landa sem sækja um ríkisborgararétt á Íslandi hafa ekki jafnan rétt, í það minnsta geta ríkisborgarar Norðurlanda sótt um ríkisborgararétt á Íslandi eftir fjögurra ára búsetu hér á landi en íbúar annarra landa verða að vera búin að vera hér í sjö ár til að sækja um.

Hvað segiði um þetta mál?

//eög

föstudagur, júní 23, 2006

Sunna


Á ég að trúa eigin augum? Er sólskin úti? Tvo daga í röð? Jú kannski svo sé, hún hefur hugsanlega komið með óþekktum ferðalangi frá meginlandi Evrópu.... ;) Svo er hér með minnt á Jónsmessunótt sem er núna í nótt, þá tala dýr tungum og dögg grassins hefur lækningamátt. Öll sem vilja eru boðin velkomin út í sveit að stripplast í dögginni og fá bót meina sinna í kaupbæti. Mun undirrituð bregða undir sig betri fætinum og fara í gönguferð á fjallið Þríhyrning. Hvur veit nema að brækurnar fái að fljúga og rassinn viðraður.
Góðar stundir.

mánudagur, júní 19, 2006

Portocratia

Þetta er orð sem ég gróf upp fyrir nokkru og er tilvísun í stemmingu sem var hér á landi fyrir nokkrum árum þegar listamenn sem ekki þóttu nógu "fínir til fara" fengu ekki aðgang að hinum og þessum atburðum. Orð þetta fann ég meðal annars í bók nokkurri um listakonuna Rósku, þar sem samtímalistamenn hennar og vinir voru oftar en ekki útilokaðir frá sýningum á vegum ríkis og bæja.

Þýðing þessa orðs gæti verið eitthvað á þessa leið: dyravarðaveldi.
Merkilegt finnst mér að ákveðin þróun hefur átt sér stað á síðastliðnum áratugum þar sem þetta hefur allt saman snúist við og farið í þrefalt heljarstökk.
Í dag munar öllu að vera listamaður, í einhverri merkingu, og vera fínn til fara "artifarti" stæl, það er það sem skiptir máli. Dorrit fílar Trabant og Björn Bjarna kæmist seint inn á sirkus!!

Saumaðu fötin þín, teiknaðu myndir, búðu til tónlist, skrifaðu reglulega í blað, vertu plötusnúður eða bargella.....because not everybody can be somebody!!!!

kveðja,
valdís
ps. þetta er ekki "ég-er-svo-bitur" pistill bara eitthvað sem ég fattaði einu sinni þegar ég raðaði öllum 5 heilasellunum mínum upp við vegg!!!

miðvikudagur, júní 14, 2006


Bara svona að minna á, fyrst ég verð ekki á landinu þann nítjánda ;)
Er skroppin til Berlínar!!!
Auf Wiedersehen!

//eög

sunnudagur, júní 11, 2006


Fleira spaugilegt á www.madameandeve.co.za sem er síða suður-afrískra teiknimyndateiknara....

laugardagur, júní 10, 2006


Jæja, hvernig líst ykkur á? Nú er búið að plástra ríkisstjórninni aftur saman og finna varahluti sem eiga að duga út kjörtímabilið. Satt að segja veit ég ekki alveg hvernig mér líst á þetta. Eiginlega ekki vel. Jú, það bætast við konur í ríkisstjórn, Jónína Bjartmarz og Valgerður Sverris sem fyrsti utanríkisráðherran sem er kona. Sem er gott mál. Samt get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort það séu ekki einhvers konar sárabætur þegar hugsað er út í hversu stutt er í næstu þingkosningar. Þá verður sagt, tja, við höfum nú þegar skipað tvær konur til viðbótar sem ráðherra, eruði ekki ánægð með það, nú þarf að finna nýja. Búið að kasta brauðmolum í smáfuglana...

Annars var ég að spjalla við Helgu um þetta allt saman. Ríkir lýðræði á Íslandi? Þetta minnir einna helst á undirbúningsvinnu fyrir fótboltaleik þar sem þjálfararnir ráða ríkjum og skipta í lið... valdið virðist algert. En þetta er jú fulltrúalýðræði, á það virkilega að vera svona, með þrjá til fjóra ráðherra í hverju ráðuneyti hvert kjörtímabil?
Spyr sú sem ekki veit.
//eög

mánudagur, júní 05, 2006

pólitískt landslag

Var að horfa á landslagið breytast í imbanum og get ekki orða bundist!! Hvað er málið með að kalla eigi Finn Ingólfsson aftur inn í pólitík líkt og Framsókn eigi ekki frambærilega ( frambærilega í Framsóknarlegu samhengi) stjórnmálamenn og KONUR eins og Siv Friðleifs eða Jónínu Bjartmarz eða mega konur kannski ekki vera formenn stjórnmálaflokka alveg strax!!! Nei líklega er betra að gamall iðnaðarskrámur og seðlabankabraskari taki við taumunum (þó reyndar vanti hestinn, hehe). Þetta fer allavega í taugarnar á mér.
Svo er það annað er Geir H. Haaaaaarde virkilega að fara að verða forsætisráðherra, maður sem ekki fyrir svo löngu síðan kom upp um gríðarlegt kvennhaturseðli sitt!!! En hey stemmningin er kannski þannig að við, íslenska þjóðin, getum ekki farið heim með fallegustu stelpunni af ballinu (sem í þessu samhengi og sambandi er Steingrímur J. eða Katrín Jakobs) og verðum því að fara bara heim með einhverju sem virkar (eða virkar ekki) og er þá Geir Haaaarde???!!!
Ef á að sökkva einhverju landslagi þá má vel sökkva þessu!!!
takk fyrir og góða nótt Reykjavík,
VBG