Svör við þeim sem segja að útlendingar taki vinnu af Íslendingum, úr skýrslu nefndar um aðlögun útlendinga, gefin út af Félagsmálaráðuneyti:
- Auðvelt er að rökstyðja kosti þess að fá fólk hingað til starfa frá öðrum heimshlutum. Rannsóknir í Bretlandi hafa sýnt fram á þá staðreynd að innflytjendur skapa fleiri störf en þeir „taka frá innfæddum“. Þetta byggist á því að fjöldi starfa í sveigjanlegu hagkerfi er ekki gefinn. Fólksfjölgun hefur það í för með sér að vinna þarf fleiri verk og störfum fjölgar í þeim greinum sem fyrir voru, auk þess verða fleiri nýjar greinar til. Aukinn fjöldi fólks leiðir samkvæmt því til þess að ný tækifæri myndast á vinnumarkaði. Íslenskir hagfræðingar hafa haldið sömu tilgátum á lofti.
- Eftirlaunaaldur í Danmörku hefur sífellt færst neðar og hlutfall þeirra sem hætta störfum vegna aldurs fer ört vaxandi. Samhliða þessari þróun minnkar hlutfall þeirra sem greiða skatta. Bent er á að til þess að mæta þessum vanda sé ein leið að hækka skatta um 5%. Önnur og betri leið að mati Dana felst meðal annars í því að stuðla að auknum fólksflutningum til Danmerkur og að hraðari aðlögun útlendinga á dönskum vinnumarkaði.
Svo allt tal um að útlendingar séu að hafa af fólki vinnu og eyðileggja allt er að sjálfsögðu bara bull.
Einn fróðleiksmoli að lokum:
Íslendingar búsettir erlendis eru mun fleiri en erlendir ríkisborgarar á Íslandi en þeir voru 10.180 í árslok árið 2003. Á sama tíma voru 28.475 Íslendingar búsettir erlendis.
Góðar stundir.
//eög